Góðar fyrirmyndir.


Nú er þetta ferðalag okkar ræktar systra að styttast í annan endann. 8 vikur af 12 búnar.

Hindranir hafa verið fáar, það er sjaldan eða bara aldrei sem ég hef þurft að tala sjálfa mig til í að fara á æfingu, eða beita mig harðræði með matarfreistingar. Stuðningurinn er auðvitað ómetanlegur. Vefja frænka hefur að mestu verið til friðs, ég hef ekki þurft að eiga við neina örmögnun, mikil verkjaköst eða heilaþoku. Ég finn aðeins fyrir verkja einkennum núna í kuldanum en það er ekkert til að væla yfir. Ég hef verið hálf hissa yfir orkunni sem ég finn að ég bý yfir þessa dagana. Ég hef meira að segja verið að undrast yfir kvöld drolli hjá mér, hingað til hef ég "reynt" að halda mér vakandi fram yfir tíu fréttir á Rúv, en núna koma kvöld þar sem ég er að gaufast til miðnættis og vakna samt eiturhress.
Mig langar til að minnast á tvær konur sem að ég lít upp til þegar kemur að breyttum lífsstíl, hvoruga þekki ég en fylgist með þeim á Facebook, en það eru annars vegar: Ragga nagli, en hún er svo ótrúlega hispurslaus og skemmtileg og á alltaf til skynsamleg ráð til að styrkja sálartetrið ef á þarf að halda. Hún er mikið ræktardýr og gúmmelaði grís.
Svo er það Sólveig Sigurðardóttir/Lífsstíll Sólveigar, en hún hefur breytt sínum lífsstíl af mikilli skynsemi fyrir framan alþjóð ef svo má segja. Til hennar sæki ég oft innblástur að mataruppskriftum. Báðar eiga þær sína fortíð sem stærri konur sem hreinlega stóðu uppúr sófanum og hentu snakkpokanum, frábærar fyrirmyndir báðar tvær og flínkar í allskonar matarpreppi sem er svo nauðsynlegt þegar maður er að fókusa á svona breyttan lífsstíl.
Í daglega lífinu hitti ég oft á dag manneskjur sem gefa mér styrk, hrós og hvatningu sem ég er ótrúlega þakklát fyrir. Eina elskulega samstarfskonu hitti ég í vikunni sem sagði: ég öfunda þig svo af þessu verkefni.......nei ég ætla að umorða þetta ......ég samgleðst þér svo innilega. Svo mikið fallega sagt og ég geri mér fyllilega grein fyrir hversu heppin ég er, þetta er eins og að vinna í happdrætti.
Fyrir utan allan stuðninginn sem Smartland MBL og Sporthúsið veita okkur stelpunum þá er stöðugt verið að gleðja okkur. Biotherm snyrtivörur færðu okkur: Body Sculpter, sem er gott fyrir slappa húð og Celluli Eraser, sem eins og nafnið segir til um minnkar cellulite. En Biotherm er mjög leiðandi í líkamsvörum.
Nike færði okkur falleg og vönduð æfingaföt og glæsilegan Speedo sundbol, svo að núna lúkkum við heldur betur vel í ræktinni. Heppin kona ég.
Tökum ábyrgð á eigin heilsu, það gerir það engin fyrir okkur.


Leitaðu þér aðstoðar

Af hverju var ég ekki búin að leita til einkaþjálfara fyrr??? Fagfólk sama í hvaða geira við erum að tala um er til að aðstoða fólk til að ná árangri. Það að hafa fasta tíma til að mæta í og hitta einhvern er svo mikill hvati og líka að skrá í matardagbók. Ég hef aldrei kært mig um að skrá niður það sem ég er að borða, kannski af þeirri augljósu ástæðu að ég hef ekki viljað horfast í augu við það og ég er ekkert að tala um að ég hafi þurft að skammast mín eitthvað fyrir það sem ég borða venjulega. En þegar maður þarf að rýna vel í aðstæður þá er þetta svo frábær leið. Stundum hefur hversdagsguggan reynt að telja mér trú um að mig langi rosalega í eitthvað aukalega sem ég á ekki að borða, en bara það að hugsa til þess að ég eigi eftir að skrifa það samviskusamlega í matardagbókina virkar sem bremsa á mig. Lilja þjálfari er samt ekkert að gera úr því stórmál þó að maður fari aðeins útaf beinu brautinni, en hún gefur góðar ábendingar sem gott er að horfa til.
Annars finn ég stórkostlegan mun á mér hvað þol og úthald varðar, ég er farin að fara í spinning sem mér fannst og finnst svo skemmtilegt. Það hefði verið óhugsandi fyrir 8 vikum síðan.
Ég tek líka bætiefnin frá Lifestream og er ég sérstaklega hrifin af Astaxanthinu frá þeim. Þetta eru rauðþörungar sem gera það að verkum að vöðvar eru fljótari að ná sér eftir æfingu og harðsperrur verða minni, einnig virka þessir rauðþörungar eins og sólvörn fyrir húðina og ég tek þetta alltaf inn áður en ég fer í sól.

En lexía dagsins er: ef þú ætlar að breyta um lífsstíl í þessa átt.....splæstu þá í einkaþjálfun, sparaðu í einhverju öðru. Það margborgar sig. Vefja frænka er líka frekar mikið atvinnulaus eins og stendur, ég hef náð að halda henni vel útundan og hún hefur ekki fengið að skemma þetta skemmtilega partý.

Farið vel með ykkur og verið góð hvert við annað.


Vonbrigði&gleði

4 vikur búnar og sú 5 hálfnuð og komið að fyrstu mælingu. Ég vissi svo sem ekki alveg hverju ég átti von á, vonaði auðvitað að kílóin væru fokin, það er svona þessi klassíski mælikvarði sem maður horfir mest á. Mælingin samanstendur af vigtun, ummálsmælingu og fitumælingu (klípa).

Fyrst var helvítis vigtin. Þvílík vonbrigði...1,6 kg farin hvurslags aumingja gangur er þetta? Svo ummálsmælingin...14 cm í heildina, fitumælingin síðust og hún sýndi - 5.41% í fitumassa. Útkoman hjá mér er semsagt að ég er fljót að byggja upp vöðva um leið og fitan bráðnar. Bræddi 5,6 kg af fitu og bjó til 3,6 kg af vöðvum.

Ég ætla að vera sátt við þetta og reyna að hætta að hugsa um kílóin. Annars eru vikurnar búnar að vera ævintýri líkast, ég byrjaði hjá kíropraktor í síðustu viku, hjá Kíropraktor stofu Íslands sem er í Sporthúsinu. Bobby (kíropraktorinn) ætlar að reyna að losa mig við tennis olnbogann og laga verk sem ég er með í mjöðm, Kann svosem ekki að útskýra það betur en mig hefur lengi langað að prófa þetta. Það er svo vel um okkur hugsað og fyrir öllu séð, heildverslunin Celsus ehf, færði okkur stóran bætiefnapakka sem innihélt: magnesium, spírulínu, astazan og essential greens til að hjálpa okkur í gegnum þetta verkefni. Svo eru Lilja, Marta María og Kolbrún Pálína alltaf á kantinum til að hvetja okkur.

La vie est belle eða lífið er ljúft og Pollíana segir mér að ég sé búin að vera að safna þessum kílóum í mörg ár og það sé ekki raunhæft að þau hverfi á 4 vikum. Ást&friður.


Dekur er spariguggu nauðsynlegt.

Oftast er tilhlökkun að fara í ræktina og hitta stelpurnar, hversdagsguggan er þó stundum að reyna að spilla spariguggunni. Æj þú ert nú búin að vera svo dugleg ....átt það alveg skilið að slæpast í sófanum. En duglega ég hef ekki hlustað á hana og alltaf átt góða æfingu sem ég hef sko ekki séð eftir að hafa mætt á. Það er líka töfrum líkast að finna hvernig þol og styrkur eykst og á ekki lengri tíma en þetta.

Ég þarf soldið að passa mig að gleyma ekki millimálunum og kannski vegna þess að mér hefur ekki endilega fundist það skipta svo miklu máli. En staðreyndin er sú eftir að hafa skoðað þetta vel, er að ég er betur undir átök búin eins og æfingu eða bara langan og strembin vinnudag ef ég passa að nærast vel. Mér finnst samt mjög gott að fasta (5:2) eins og fram hefur komið, en á meðan ég er að auka brennsluna og venjast nýjum lífsstíl ætla ég að sleppa föstunni.

Ég reyni líka að finna mér tíma fyrir dekur og fer oftast í epsomsalt bað eftir æfingar. Hallgrímur Magnússon heitinn læknir ráðlagði mér að nota 2 bolla af saltinu og 2 msk af góðum matarsóta í vel heitt bað og liggja í því í 20 mínútur, ég set líka 10 dropa af Lavander olíu í, svo nota ég tímann á meðan ég ligg í baðinu og set á mig góðan Lancôme maska. Þetta gerir kraftaverk fyrir þreytta kroppa og svo sefur maður svo vel á eftir.
...mér þætti ofurvænt um að þið sem nennið að lesa þessar hugleiðingar skilduð eftir ykkur spor.....bara lítið "kvitt" er alveg nóg kiss

 

Eigið góða ræktarhelgi.


Ég er enn á lífi

Nú eru 2 fyrstu vikurnar á þessu 12 vikna ferðalagi að klárast og ótrúlegt en satt þá er ég enn á lífi. Nema hvað, ég er ekki fyrsta manneskjan sem fer í gegnum þetta ferli, en ég er bara svo heppin að hafa þennan stuðning. Þær stöllur Kolla, Marta og Lilja passa okkur eins og börnin sín og svo eru spariguggurnar svo miklar eðaldömur að það hálfa væri nóg. Lilja hefur ítrekað minnt mig á að borða meira og oftar en mér reynist soldið erfitt að fylgja því. Síðustu 2 ár hef ég fastað 2svar í viku (5:2)og líður mjög vel með því en ég hugsa að ég setji það á "hold" þessar 12 vikur. Ég er svo mikið að reyna að vanda mig í mataræðinu, sætindi og kökur eru ekki minn veikleiki, en salöt(þá meina ég mæjó), góð brauð, fallegur matur og kartöflur í ýmsum útfærslum úff ...hættu nú. Ég má auvitað alveg borða fullt af góðum og fallegum mat en bara minna af öllu/flestu. Svo er annað... ég var soldið búin að kvíða fyrir harðsperrunum en þetta er svo dásamlega gott/vont og svo er auðvitað foamflex rúllan mín alveg að standa sig. Ég finn líka þrekið aukast, fékk reyndar kvefpest og er búin að vera raddlaus í 4 daga en það er kannski bara gott fyrir ættingja og vini. Eitt að lokum, Vefja frænka hefur bara verið mjög stillt. Góða helgi


Nýtt upphaf

Ferðalög hafa alltaf heillað mig og ég er svo heppin að geta stundað það nokkuð vel. Núna er ég hinsvegar að fara í 12 vikna ferðalag með hóp sem ég þekki ekki neitt, semsagt lífsstílsbreytingu með fagmönnum. Marta María hjá Smartlandinu góða hringdi í mig og tjáði mér að ég hefði verið valin úr hópi umsækjanda ásamt 4 öðrum spariguggum til að taka þátt í lífstílsbreytingu með Smartlandinu og Sporthúsinu. Ég sótti auðvitað sjálfviljug um en átti ekki sjéns í mínum huga. Hvað ég er heppin....og spennt, en líka pínu kvíðin því mér hefur gengið illa síðustu 10-15 ár að setja hreyfingu inn í minn lífsstíl. Ég er með vefjagigt og sú frænka skemmir mikið fyrir mér. Ég á ekki von á að ég geti sagt henni (vefjagigtinni) upp, en er að vona að ég geti platað hana og náð að gera hreyfingu að fíkn og þar með minnkað áhrif þessa sjúkdóms þannig að ég verði barasta hrikalega hraust. Fyrsta æfing var í gærkvöldi með Lilju Ingvadóttur einkaþjálfara, ég er langelst í hópnum (fékk titilinn yfirsparigugga) og tók ekki alveg eins vel á og hinar. Nóttin var pínu erfið vefja frænka lét á sér kræla en með hjálp foamflex rúllunar minnar náði ég að sofa ágætlega, ég er ekki að grínast með þessa rúllu hún hreinlega bjargar mér...ég meira að segja tek hana með mér til útlanda. En nóg í bili, er í fríi í dag og er að fara í hairdo...og ætla í göngutúr seinnipartinn.


Um bloggið

Bára Hafsteinsdóttir

Höfundur

Bára Hafsteinsdóttir
Bára Hafsteinsdóttir
Ég er 53 gömul kona sem tek þátt í lífsstílsbreytingu með frábærum hópi kvenna og er kaldhæðin nautnaseggur sem hef gaman af lífinu.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...age_1270473
  • ...image

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband